*

þriðjudagur, 31. mars 2020
Innlent 14. september 2019 14:05

Afkoman versnað um 742 milljónir

Afkoma fjögurra stærstu rútufyrirtækja landsins dróst töluvert saman á síðasta ári annað árið í röð.

Ástgeir Ólafsson
Afkoma Allrahanda GL versnaði um 321 milljón króna á síðasta ári.
Aðsend mynd

Fjögur stærstu rútufyrirtæki landsins, Kynnisferðir, Allrahanda GL (Gray Line), Snæland Grímsson og Hópbílar, töpuðu samtals 388 milljónum króna á síðasta ári samkvæmt ársreikningum félaganna samanborið við 182 milljóna króna tap árið 2017. Versnaði afkoma þeirra því um 156 milljónir á síðasta ári og hefur versnað um 742 milljónir frá árinu 2016.

Kynnisferðir var eina félagið sem skilaði betri afkomu árið 2018 en árið 2017, en 362 milljóna króna viðsnúningur varð á afkomu þess á síðasta ári. Félagið skilaði 48 milljóna króna hagnaði árið 2018 en það hafði lent í töluverðum vandræðum árið á undan en afkoma þess versnaði um 458 milljónir króna á milli áranna 2017 og 2016. Mesti neikvæði viðsnúningurinn varð hins vegar hjá Allrahanda GL en tap félagsins nam 516 milljónum króna á síðasta ári og jókst um 321 milljón á milli ára en afkoma þess hefur versnað um 462 milljónir króna frá árinu 2016.

Hagnaður Snælands Grímssonar nam 93 milljónum króna á síðasta ári og dróst saman um 29% milli ára en er þó á svipuðum slóðum og árið 2016 þegar hann nam 87 milljónum. Þá nam hagnaður Hópbíla 37 milljónum króna en afkoma félagins versnaði um 159 milljónir á milli ára. Í ársreikningi félagsins kemur þó fram að krafa á tengt félag hafi verið niðurfærð um 88 milljónir króna.

Þess ber að geta að þó félögin fjögur séu öll í skyldum rekstri eru þau ekki fullkomlega samanburðarhæf þar sem misjafnt er hver stór hluti af veltu fyrirtækjanna felst í rekstri ferðaskrifstofu.

Stærri en hinir til samans 

Þegar litið er á rekstartekjur fyrirtækjanna fjögurra eru skoðaðar má sjá að Kynnisferðir eru langstærsta rútufyrirtæki landsins en tekjur félagsins námu um 9,1 milljarði króna á síðasta ári og jukust um milljarð króna á milli ára. Allrahanda GL er næststærst en velta félagsins nam tæplega 3,1 milljarði á síðasta ári og dróst saman um 23% milli ára. Hópbílar koma svo í þriðja sæti með tekjur upp á tæplega 2,9 milljarða en þær jukust um 29% á milli ára. Þá námu tekjur Snælands Grímssonar rúmlega 2,3 milljörðum og drógust lítillega saman á milli ára. Tekjur félaganna fjögurra námu samtals tæplega 17,4 milljörðum á síðasta ári og jukust um 4% á milli ára en samanlagðar tekjur þeirra hafa aukist um tvo milljarða króna á síðustu tveimur árum.

EBITDA félaganna nam samtals rúmlega 1,7 milljörðum króna á síðasta ári og dróst saman um 16% milli ára. Líkt og með afkomu var þróunin þó ólík milli ára. EBITDA Kynnisferða nam 1.476 milljónum króna og jókst um 362 milljónir á milli ára. EBITDA Allrahanda GL var neikvæð um 318 milljónir og versnaði um 404 milljónir á milli ára. Hjá Hópbílum nam hún 326 milljónum og dróst saman um 195 milljónir auk þess sem EBITDA Snælands Grímssonar dróst saman um 90 milljónir og nam 238 milljónum á síðasta ári.

   

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér