Tryggingamiðstöðin hf. hefur selt eignarhlut sinn í Straumi fjárfestingabanka hf. sem nam 498 mkr. að nafnvirði eða 9,22%. Söluhagnaður vegna viðskiptanna nam 1.520 mkr. fyrir reiknaðan tekjuskatt. Eignarhluturinn var seldur til hlutdeildarfélags Tryggingamiðstöðvarinnar, Fjárfestingarfélagsins Grettis hf. sem er að 49,75% hlut í eigu TM. Þar sem um er að ræða sölu til hlutdeildarfélags nemur innleystur hagnaður vegna viðskiptanna 626 mkr. eftir reiknaðan tekjuskatt.

Viðskiptin voru gerð með fyrirvara um að kaupandi hlutarins, Fjárfestingarfélagið Grettir hf., hljóti samþykki Fjármálaeftirlitsins á því að eignast virkan eignarhlut í Straumi fjárfestingarbanka hf.

Tryggingamiðstöðin hefur einnig selt eignarhlut sinn í Heklu hf. sem var þriðjungur hlutafjár í félaginu. Kaupandi er Herðubreið ehf. sem fyrir átti meirihluta hlutafjár í Heklu. Hlutabréfin voru seld með hagnaði, en söluverð þeirra er trúnaðarmál.

Ef samþykki fæst hjá Fjármálaeftirlitinu á kaupum Fjárfestingarfélagsins Grettis á virkum eignarhlut í Straumi fjárfestingarbanka má vænta að hagnaður af sölu hlutabréfa verði talsvert meiri en áætlun félagsins gerði ráð fyrir eftir níu mánaða uppgjör. Er því nú gert ráð fyrir að hagnaður ársins 2004 verði um 2 milljarðar kr. eftir reiknaðan tekjuskatt.