Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segir að því muni fylgja áhætta að afnema höft og afnám hafta krefjist pólitísks kjarks.

„Það er ekki hægt að reikna sig til hinnar endanlegu niðurstöðu í gjaldeyrishaftamálinu og leiða fram lausn á grundvelli útreikninganna einna og sér heldur verður útkoman alltaf háð einhverri óvissu. Við getum spáð fyrir um það hvernig hlutirnir muni þróast þegar höftin eru afnumin. Við erum með greiðslujafnaðarspá, við erum með upplýsingar um gjaldeyrisjöfnuð. Við vitum hvaða skuldbindingar Íslendingar hafa undirgengist í erlendum gjaldeyri og við vitum hversu margir erlendir ferðamenn koma hingað og svo framvegis. En nákvæmlega hvernig einstaka þættir eða kraftar munu hegða sér þegar höft eru afnumin er alltaf háð ákveðinni óvissu. Þess vegna er ég sammála því að það muni þurfa pólitískan kjark til að stíga þessi skref þegar að því kemur,“ segir Bjarni.

Hann bendir á að höftin lágmarki þessa áhættu í augnablikinu. Vinnan felist í því að spá fyrir um það hvernig hlutirnir muni þróast eins langt og hægt sé að sjá það fyrir. „Það sem við blasir er að það er ekki mögulegt að afnema höftin og hleypa öllum aflandskrónum og öllum eignum þrotabúanna út á gjaldeyrismarkaðinn. Það mun hafa mjög neikvæðar afleiðingar fyrir gengi, verðbólgu og þar með kjör almennings í landinu. Fyrir mér hefur alltaf skipt svo miklu máli í umræðu um höftin að jafnræðis sé gætt. Að menn geri sér grein fyrir því að höftin eru á öllum Íslendingum. Jafnvel þótt slitabúin séu mjög stór hluti vandans þá geta þau ekki gert kröfu um að njóta forgangs við lausn málsins. Þau eru einungis jafn rétthá og ég og þú og öll fyrirtæki í landinu, lífeyrissjóðir og aðrir,“ segir Bjarni. Aðalmálið sé að verja hagsmuni heildarinnar.

Ítarlegri umfjöllun birtist í Viðskiptablaðinu 5. júní 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .