Set, sem sett var í söluferli fyrr á árinu, hefur verið eina fyrirtækið á lagnasviði sem framleiðir fyrir markaði innanlands frá árinu 2009 en fyrir það voru ýmis önnur fyrirtæki starfandi á þvi sviði, svo sem Hampiðjan, Sæplast og Reykjalundur.

Erlenda samkeppnin er þó mikil að sögn Bergsteins Einarssonar, forstjóra Sets, sem veitir gríðarlegt kostnaðaraðhald. Þau séu í virkri samkeppni á öllum sviðum með innfluttum vörum.

„Eftir að EES-samningurinn tók gildi þá erum við í raun og veru að bjóða á alþjóðlega markaði þegar við erum að bjóða í stærri verkefni hérna heima. Gengið er náttúrulega ekki hagstætt og við erum með eitt hæsta kaupgjald í heimi.“

Engu að síður séu mikil tækifæri í félaginu til vaxtar í framtíðinni.

„Það er ekki síst á nýjum sviðum, eins og í landeldinu hérna heima og orkuskiptunum í Evrópu sem verður mjög vaxandi markaður á næstu árum í kjölfar ástandsins í heimsmálum. Fjarvarminn á eftir að verða stór partur af orkuskiptunum í Evrópu og um allan heim,“ segir Bergsteinn.

„Það býr mikil reynsla og þekking í liðsheildinni okkar en eitt helsta vandamál liðinna ára er að komast yfir að virkja öll þau tækifæri til nýsköpunar og vaxtar sem við erum með í höndunum. Við erum að þjóna öllu sem kemur í húsið hjá fólki, það er heitt vatn, kalt vatn og svo frárennslið frá húsum, við erum með rör í ljósleiðarann, raflagnir og fleira. Þannig að þjóðhagslega er þetta fyrirtæki mjög mikilvægt og það sýnir sig núna til dæmis með það sem er búið að gerast á Suðurnesjunum. Það skiptir miklu máli að hafa sterkan framleiðanda innanlands í þessari vöru.“

Nánar er rætt við Bergstein í Viðskiptablaðinu, sem kom út á miðvikudag. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.