Helstu hlutabréfavísitölur í Evrópu hækkuðu við opnun markaða í dag. Hækkanir mældust einnig í Asíu og vísbendingar eru um að markaðir vestanhafs taki sömu stefnu við opnun.

Talið er líklegt að Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, muni næstkomandi föstudag tilkynna um frekari aðgerðir til að örva efnahag þar í landi.

Stoxx Europe 600 vísitalan hækkaði um 1,3% í morgun. Hún hefur nú lækkað um rúmlega fimmtung frá því í febrúar, sem rekja má til ótta við skuldavanda Evrópuríkja og Bandaríkjanna.