Verð sjávarafurða mælt í erlendri mynt (SDR) var hærra í nóvember en það var í fyrri mánuði samkvæmt verðvísitölum sjávarafurða sem Hagstofa Íslands birti í dag. Verð sjávarafurða í erlendri mynt hækkaði um 2% milli mánaða og hefur verðið í erlendri mynt farið hækkandi frá því í maí á þessu ári. "Gengi krónunnar styrktist þó um 2,6% á fyrstu ellefu mánuðum ársins og þess vegna lækkaði verð sjávarafurða um 0,6% eftir að búið er að umreikna hækkunina yfir í krónur. Styrking krónunnar hefur því rýrt hækkun verðs á erlendum mörkuðum og komið sér illa fyrir sjávarútveginn;" segir í Vegvísi Landsbankans.

Þar er ennfremur bent á að á fyrstu ellefu mánuðum ársins er verð sjávarafurða í íslenskum krónum að meðaltali 2,5% lægra en það var á sama tíma í fyrra en verð í erlendri mynt stendur þó nánast í stað. Það sem af er þessu ári er krónan að meðaltali 2,2% sterkari en hún var á sama tíma í fyrra og því má að mestu leyti rekja lækkun á verði sjávarafurða í íslenskum krónum til fyrrgreindrar styrkingar.