*

mánudagur, 6. desember 2021
Innlent 29. janúar 2017 09:02

Agi og sveigjanleiki

Tryggingafélagið Allianz var efst á lista Creditinfo yfir meðalstór fyrirtæki. Eyjólfur Lárusson, framkvæmdastjóri Allianz á Íslandi kveðst hæstánægður.

Pétur Gunnarsson
Eyjólfur Lárusson, framkvæmdastjóri Allianz á Íslandi.
Haraldur Guðjónsson

Tryggingafélagið Allianz er sögufrægt og flestir Íslendingar kannast við merkið. Það var stofnað í Berlín árið 1890 en í dag er Allianz ein stærsta tryggingasamsteypa veraldar með starfsemi í yfir 70 löndum, 148 þúsund starfsmenn og um 85 millj­ónir viðskiptavina. Skrifstofa Allianz á Íslandi var opnuð árið 1994. Allianz Ísland hf. er í fyrsta sæti á lista meðalstórra fyrirtækja og í 73. sæti heilt yfir. Eyjólfur Lárusson, framkvæmdastjóri Allianz á Íslandi, segir að viðurkenningin styrki stoðir þess góða starfs sem fyrirtækið beiti sér fyrir. „Við höfum verið framúrskarandi undanfarin sex ár. Að vera komin í fyrsta sæti í okkar flokki hlýtur að segja umhverfinu að við séum að gera eitthvað rétt. Okkur hrakar ekki, við erum bara að bæta okkur. Maður fer nú ekki hærra en í fyrsta sæti.“

Spurður út í rekstrarárið 2016 segir Eyjólfur að árið hafi gengið vel, heilt yfir. „Fyrirtækið vex og dafnar. Fleiri og fleiri Íslendingar eiga við okkur viðskipti. Ímynd okkar styrkist, markaðshlutdeild eykst sem og traust til Allianz. Allir þessir mælikvarðar sem skipta máli fara í rétta átt. Við finnum fyrir því í auknum við­ skiptum og aukningu í viðskiptavinum sem eru hjá Allianz og þeim hluta Íslendinga sem treysta Allianz fyrir sínum málum. Það er aukning í öllu: Lífeyristryggingum, líftryggingum, slysatryggingum, barnatryggingum, það er aukning í öllum þessum flokkum hjá okkur,“ segir Eyjólfur, sem er hæstánægður með vottun Creditinfo. Eyjólfur segir að það skipti mestu máli að tekjur séu meiri en kostnaður, spurður að því hvaða tölur skipti hann mestu máli þegar litið er á rekstrarreikning fyrirtækisins. „Það er okkar fyrsta viðmið, þannig að við getum haldið úti góðri þjónustu, án þess að hafa áhyggjur af því að eiga fyrir því. Við höfum verið svo heppin að alveg frá árinu 2008 hefur verið hagnaður á félaginu. Við komumst í gegnum allt sem heitir kreppa og hrun. Við höfum aðlagað okkur aðstæðum hverju sinni og reynt að finna lausnir þegar vandamál blasa við. Það er það sem er mest um vert.“

Hann bætir við að það sé mikill agi hjá fyrirtækinu varðandi vinnubrögð og að undanfarin ár hafi fyrirtækið unnið stöðugt að umbótum. „Við erum alltaf að laga verkferla, bæta vinnulag og svo erum við að leggja meiri áherslu á að mennta starfsfólk okkar og ráðgjafa og gera meiri og meiri kröfur á okkur sjálf. Það skiptir miklu máli og höfum verið samstíga í þessu, Allianz í Þýskalandi, stjórn, starfsfólk og ég. Við erum stöðugt að skoða okkur inn á við til að verða betri út á við. „Númer eitt tvö og þrjú er þjónustan við viðskiptavini.“ Hann bætir jafnframt við að Allianz á Íslandi þurfi einnig að huga að kröfum Allianz í Þýskalandi.

„Það eru þeir sem eru samningshafinn og eru á bak við okkur. Þeir eru okkar stoð, stytta og styrkleiki. Við erum líka að vinna með þeirra ferla og kröfur. Við erum margskoðuð. Við erum með innri endurskoðun, markaðsúttektir, úttektir á starfseminni sem gerð er frá Allianz í Þýskalandi og alls konar aðrar úttektir gerðar af óháðum aðilum. Svo erum við með leiðbeiningu og vinnulag frá Þýskalandi. Það eru nokkuð stífar vinnureglur hjá okkur, en um leið reynum við að vera sveigjanleg í þessu íslenska breytanlega umhverfi,“ segir Eyjólfur.

Með öll gögn á hreinu

Eyjólfur segir, spurður um hvernig það hafi gengið fyrir Allianz á Íslandi að vinna í höftum, að fyrirtækið hafi lagt áherslu á samstarf við Seðlabanka Íslands allt frá upphafi gjaldeyrishafta. „Við lögðum allt fyrir og unnum hlutina í samráði við þá. FME gerði úttekt hjá okkur, hvort við værum ekki að vinna eftir öllum lögum og reglum, og gerði ekki athugasemdir. Þá vorum við í góðri trú. En svo gerist það, árið 2014, að Seðlabankinn vildi meina að við værum ekki að vinna eftir gjaldeyrislögum. En annað kom á daginn og Seðlabankinn samdi við Allianz. Við vorum með öll okkar gögn á hreinu enda hefði Allianz í Þýskalandi aldrei samþykkt það að starfa í einhverju landi með ólögum. Við gátum lagt allt á borðið, enda erum við enn þá hér, og erum komin í fyrsta sæti á lista meðalstórra fyrirtækja, það segir eitthvað,“ tekur hann fram.

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Framúrskarandi, sem fylgdi Viðskiptablaðinu 26. janúar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.