Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) þarf að fá innspýtingu upp á 350 milljarða dala eigi hann að geta glímt við skuldakreppuna á evrusvæðinu.

Reuters-fréttastofan hefur þetta eftir tveimur heimildamönnum sínum sem voru staddir á fundi fjármálaráðherra tuttugu stærstu iðnríkja heims í París í gær.

Komið hefur til tals innan AGS að stækka umfang sjóðsins svo hægt verði að koma illa stöddum löndum sem glími við erfiðan skuldavanda til hjálpar. Þar eru Ítalía og Spánn ofarlega á blaði en við núverandi aðstæður er talið að AGS verði að grafa djúpt í vasa sína eigi sjóðurinn að koma öðru hvoru landinu til bjargar.

AGS hefur nú um stundir yfir að ráða 380 milljörðum dala. Haft hefur verið eftir Christine Lagarde, framkvæmdastjóra AGS og fleirum, að það sé tiltölulega lág upphæð versni skuldakreppan á evrusvæðinu.