Alcoa Fjarðaál og Eimskip hafa undirritað samning um að Eimskip sjái um flutning á rúmlega 220.000 tonnum,  þar af innflutning á 180.000 tonnum og útflutning á 40.000 tonnum á ári, fyrir Alcoa Fjarðaál. Um er að ræða alla flutninga á rafskautum fyrir álver Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði.  Jafnframt hafa félögin náð samkomulagi um 40.000 tonna álflutninga til Bandaríkjanna og er því um að ræða flutninga upp á 260.000 tonn á ári.

Þessi samningur kemur í beinu framhaldi af samningi sem félögin gerðu með sér fyrr á árinu og var kynntur í febrúar síðastliðnum. Þá var samið um að Eimskip annist alla skipaafgreiðslu fyrir Fjarðaál í Reyðarfirði. Í þeim samningi felst uppskipun á 690.000 tonnum af súráli og öllum aðföngum til álframleiðslu, svo og á allri lestun áls sem nemur 346.000 tonnum á ári. Í heild er því umfang samningsins 1.300.000 tonn á ári, sem fara munu í gegnum Mjóeyrarhöfn í Reyðarfirði.

Samningar fyrirtækjanna tveggja á sviði flutningastarfsemi og þjónustu leiðir af sér eitthvert umfangsmesta samstarf á sviði flutninga sem ráðist hefur verið í á þessu sviði hér á landi.

Tómas Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls sagði við undirritun samningsins: „Nú þegar starfsemi Fjarðaáls er að komast í fullan gang, skiptir höfuðmáli að flutningar á hráefni til framleiðslunnar raskist ekki. Við erum þess vegna mjög ánægð með þennan samning við Eimskip sem hafa mikla og farsæla reynslu af öruggum flutningum á erfiðum siglingaleiðum."

Guðmundur Davíðsson, forstjóri Eimskips á Íslandi sagði við sama tilefni: „Það hefur mikil uppbygging átt sér stað á Austurlandi undanfarin ár og Eimskip hefur tekið virkan þátt í henni. Rúmlega 30 ný störf hafa skapast á svæðinu á árinu til viðbótar þeim 40 störfum sem þegar voru til staðar hjá Eimskip á Austurlandi. Þessi störf koma öll til vegna álvers Alcoa Fjarðaáls. Góð hafnaraðstaða á Reyðarfirði skapar mikla möguleika fyrir Eimskip að hagræða í innanlandsflutningum sínum og byggja upp höfnina á Reyðarfirði sem höfn Norður- og Austurlands. Það er ljóst að höfnin verður mjög mikilvæg í framtíðinni vegna nálægðar hennar við Evrópu."

Þegar starfsemi álversins kemst í fullan gang verður Mjóeyrarhöfn í Reyðarfirði önnur mesta vöruflutningahöfn landsins. Til samanburðar má geta þess að um tvær milljónir tonna fara árlega um Reykjavíkurhöfn og 900 þúsund tonn um Grundartangahöfn.


Eimskip hefur bætt skipinu BBC Reydarfjordur við siglingaflota sinn og tekið upp nýja siglingaáætlun til að annast flutningana. Floti Eimskips er í dag 40 til 50 skip. BBC Reydarfjordur mun sigla vikulega á milli Reyðarfjarðar og Mosjoen í Noregi.

Í hverju keri í álveri Fjarðaáls í Reyðarfirði eru 40 rafskaut og er hvert þeirra um eitt tonn að þyngd. Kerin eru 336 að tölu og á hverju ári þarf að flytja um 200 þúsund rafskaut frá Noregi til Íslands, sem samtals vega um 183 þúsund tonn.

Eimskip hefur fest kaup á 850 nýjum sérhönnuðum gámum fyrir flutninga á rafskautunum fyrir Fjarðaál. Með nýrri tækni sem þróuð hefur verið sérstaklega til þessara flutninga verður hleðsla rafskautanna í gámana og losun þeirra algjörlega sjálfvirk og mannshöndin kemur þar hvergi nærri.

Við rafgreiningu áls brennur stærstur hluti rafskautanna upp og eftir verða svokallaðar skautleifar. Eimskip mun sjá um að flytja þær aftur út til endurvinnslu í Mosjoen í Noregi. Það er áætlað að þannig fari til endurvinnslu um 43.000 tonn af skautleifum á ári. Alcoa Fjarðaál hyggst einnig safna og senda til endurvinnslu svokallað skautryk sem fellur til við rafgreiningu áls.