Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra á 150 milljónir í eignir umfram skuldir sem hún greiðir auðlegðarskatt af samkvæmt álagningarskrá sem skattyfirvöld birta opinberlega í ágúst á hverju ári. Davíð Oddsson, núverandi ritstjóri Morgunblaðsins, á samkvæmt álagningarskrá 159 milljónir króna í hreina eign og Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins 130 milljónir króna.

Hinn nýi auðlegðarskattur, sem lagður var á eignir 3.817 fjölskyldna, skilar um 3,8 milljörðum króna í ríkiskassann. Í raun er þetta 1,25% eignarskattur sem er lagður á eignir einhleypra, sem áttu meira en 90 milljónir króna í hreinar eignir, og hjóna/sambúðarfólks sem áttu meira en 120 milljónir.

Nánar er farið yfir eignastöðu athafna- og stjórnmálamanna í úttekt Viðskiptablaðsins sem kom út í dag. Þar kemur fram að Guðbjörg Matthíasdóttir, athafnakona í Vestmannaeyjum, greiðir mest í auðlegðarskatt, samkvæmt úttektinni, og auðæfi Engeyjarættarinnar eru enn til staðar. Sjá blaðið hér.