Alþjóðlega geimstöðin ISS sem verið hefur í smíðum í meira en áratug verður í dag fullmönnuð af sex geimförum samtímis í fyrsta sinn. Rússneska Soyuz geimfarið TMA-15 er nú á leið með þrjá geimfara í stöðina sem hitta fyrir þrjá kollega sína sem fóru út í geiminn með Soyuz TMA-14 í lok mars á þessu ári.

Soyuz TMA-15 var skotið á loft frá Baikonur Cosmodrome geimferðastöð Rússa í dag klukkan 14:34:53 að Moskvutíma. Tíu mínútum seinn var tilkynnt að geimfarið væri komið á sporbaug um jörðu samkvæmt frétt á Russian Space Web.com. Um borð eru Roman Romanenko frá Rússlandi, Robert Thirsk frá Kanada og evrópski geimfarinn Frank De Winne sem er frá Belgíu.

Í október verður annar stórviðburðir í geimnum, en þá munu þrjú Soyuz geimför verða samtímis við alþjóðlegu geimstöðina í fyrsta sinn, en þá fara fram áhafnaskipti.