Íbúðalánasjóður stefnir á að allar leiguhæfar íbúðir í eigu sjóðsins verði komnar á leigumarkað í nóvember. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs fyrir ágústmánuð. Skýrslan var birt í Kauphöll Íslands í dag.

Fullnustueignir sjóðsins eru nú 2.575. Tæpur helmingur þeirra eigna er þegar í útleigu eða um 1.195. Þær 1.300 íbúðir sem ekki eru í útleigu eru í mjög misjöfnu ástandi, frá því að vera vart fokheldar til þess að þarfnast nokkurra lagfæringa.

Í skýrslunni kemur fram að Íbúðalánasjóður setur að hámarki 1,5 milljónir króna í viðgerðir og frágang á íbúð til þess að gera hana leiguhæfa. Um 130 eignir í eigu sjóðsins falli í þann flokk. Viðgerðum og standsetningu sé  hraðað eftir megni og það muni taka um átta vikur að gera þær allar tilbúnar fyrir leigumarkað. Í nóvember er því áætlað að allar leiguhæfar íbúðir Íbúðalánasjóðs verði komnar í leigu eða boðnar á leigumarkaði.

Kosti standsetning fyrir leigu meira en 1,5 milljónir kr. fer viðkomandi eign í söluferli. Slíkar eignir eru yfir þúsund talsins og eignasvið Íbúðalánasjóðs hefur því ekki haft undan. Íbúðalánasjóður hefur því ákveðið að semja við utanaðkomandi verktaka til þess að hraða megi undirbúningi og skráningu eigna, þrifum og gerð sölulýsinga.

Segir í mánaðaskýrslu Íbúðalánasjóðs að stefnt sé að því að allar eignir sjóðsins verði tilbúnar í sölu fyrir áramót. Markaðsaðstæður á mismunandi stöðum geti þó að sjálfsögðu haft áhrif á það hversu hratt eignir séu settar í sölu.