Mál sérstaks saksóknara gegn níu fyrrverandi starfsmönnum Kaupþings verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Upphaflega stóð til að verjendur sakborninga myndu leggja fram greinargerðir í dag. Sakborningar eru ákærðir fyrir brot á lögum um verðbréfaviðskipti á nokkurra ára tímabili á árunum áður en Fjámálaeftirlitið tók rekstur bankans yfir.

Samkvæmt upplýsingum VB.is munu greinargerðir hins vegar ekki vera lagðar fram heldur verða lagðar fram frávísunarkröfur. Eftir því sem VB.is kemst næst munu verjendur allra sakborninga leggja fram slíkar kröfur.

Á meðal hinna ákærðu eru Hreðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður, Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi. Tveir fyrrnefndu voru á dögunum dæmdir til að sæta þungum refsingum þegar dómur í svokölluðu al-Thani máli var kveðinn upp.