Tökur á fjórðu seríu sjónvarpsþáttanna vinsælu Game of Thrones hefjast hér á landi í næstu viku og munu standa fram í ágúst. Síðustu tvær seríur hafa einnig verið teknar hér að hluta, báðar að vetrarlagi en að þessu sinni verður Ísland í sumarskrúðanum.

Game of Thrones er enn eitt stórverkefnið í kvikmyndageiranum sem unnið er að hér á landi á undanförnum mánuðum. Pegasus er framleiðendum þáttanna innan handar en TVG-Zimsen hefur séð um flutningshlutann. Í tilkynningunni kemur ekki fram nákvæmlega hvar á landinu tökur fara fram í þetta skiptið, en samkvæmt heimildum kvikmyndavefsins Svarthöfða verður fjórða sería m.a. tekin upp á Þingvöllum, Hengli og í Þjórsárdal.

Í tilkynningunni er haft eftir Þórði Birni Pálssyni, deildarstjóra hjá TVG-Zimsen, að verkefni af þessari stærð hafi mjög jákvæð áhrif fyrir Ísland. Tökur undanfarin ár hafi gengið vel og að framleiðendur þáttanna hafi verið ánægðir með Ísland, bæði sem tökustað og þá þjónustu sem þeir hafa fengið við gerð þáttanna. Um þriðja hundrað manns unnu við síðustu tvær þáttaraðir, þar á meðal fjöldi Íslendinga og er ráðgert að svipaður fjöldi vinni að verkefninu nú.

Rúmlega tíu milljónir hafa samanlagt fylgst með hverjum þætti af Game of Thrones hjá bandarísku sjónvarpsstöðinni HBO. Þáttaröðin er þar með orðin sú þriðja vinsælasta í sögu stöðvarinnar.