Almar Örn Hilmarsson, fyrrverandi forstjóri danska flugfélagsins Sterling, hefur stefnt fjárfestingarfélaginu Fons hf. sem áður var í eigu Pálma Haraldssonar athafnamanns og Jóhannesar Kristinssonar, en það er nú í slitameðferð eins og Sterling.

Málið snýst um það að Almar Örn vill láta taka upp að nýju mál sem þrotabú Fons höfðaði til að rifta 16,9 milljóna króna greiðslum sem fóru frá Fons til Römlu, félags Almars, í janúar og febrúar 2009. Enginn tók til varna í málinu og hefur Almar borið því við að hann hafi ekki vitað af málatilbúnaði þrotabús Fons.