*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Innlent 15. nóvember 2021 12:31

Álögð gjöld lækka um 5% á milli ára

Endurgreiðslur vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar og lækkun bankaskatts vega mest í lækkun álagðra gjalda hins opinbera.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Álögð gjöld á lögaðila námu alls 180,3 miljörðum króna á rekstrarárinu 2020. Um er að ræða 9,5 milljarða lækkun, eða sem nemur 5%, frá fyrra ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu en ríkisskattstjóri hefur nú lokið álagningu opinberra gjalda.

„Álagningin ber óhjákvæmilega merki Covid-faraldursins og þeirra áhrifa sem hann hefur haft bæði á hagkerfið og stefnu stjórnvalda. Tekjustofnar drógust saman samhliða minni efnahagsumsvifum og auknu atvinnuleysi sem ásamt aðgerðum stjórnvalda, m.a. lækkun álaga og auknum stuðningi við atvinnulífið, birtist nú í lægri tekjum ríkissjóð,“ segir í tilkynningunni.

Fram kemur að hæst hafi borið á viðbót í endurgreiðslum vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar nýsköpunarfyrirtækja og lækkun bankaskatts.

Ríkissjóður endurgreiddi 10,4 milljarða vegna rannsókna og þróunarkostnaðar samanborið við 5,2 milljarða árið áður. Hin mikla aukning kemur til vegna tímabundinnar hækkunar á endurgreiðsluhlutfalli og hækkunar á kostnaði til útreiknings á frádrætti frá álögðum tekjuskatti árin 2021 og 2022.

Skatthlutfall sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki (bankaskatts) lækkaði úr 0,376% í 0,145% á milli ára. Álagður bankaskattur nam 4,8 milljörðum á síðasta ári og lækkaði tæplega 6,1 milljarð frá fyrra ári. Fimm lögaðilar greiða þennan skatt en fjórir greiddu hann árið á undan.  

Álagt tryggingagjald lækkar um 5 milljarða á milli ára sem ráðuneytið rekur til breyttrar stöðu á vinnumarkaði. „Aðgerðir stjórnvalda á borð við hlutabótaleið er helsta ástæða þess að tekjur af tryggingagjaldi lækkuðu ekki frekar og að tekjuskattur einstaklinga hækkaði um 1,5% milli ára.“

Gjaldskyldum félögum fækkar um 242, eða 0,5% milli ára og eru nú 48.088 en félögum sem greiða tekjuskatt fækkar um 286, eða 1,7% milli ára.