Álverð lækkaði örlítið á hrávörumarkaði í gær og stendur nú í um 2.107 dollurum tonnið. Fyrir helgina komst það upp í um 2.113 dollara sem er hæsta verð sem sést hefur síðan í október 2008. Verð á stáli hefur aftur á móti haldist nokkuð stöðugt eftir hækkanir í byrjun september og er það nú í kringum 490 dollara tonnið. Stálverðið fór hæst á svipuðum tíma og álverðið í júlí 2008, en þá var verðið á stáltonninu á markaði LME um 1.170 dollarar. Það hrapaði síðan mun meira en álið, eða niður í um 260 dollara í október 2008 en hefur síðan hægt og bítandi verið að styrkjast.