*

sunnudagur, 24. október 2021
Innlent 18. febrúar 2021 07:01

Álverið fært upp aftur um 14 milljarða

Niðurfærslu álvers Rio Tinto í Straumsvík niður í 0 hefur verið snúið við eftir að samningar náðust við Landsvirkjun.

Júlíus Þór Halldórsson
Álver Rio Tinto í Straumsvík.
Haraldur Guðjónsson

Rio Tinto hefur fært upp virði álvers síns í Straumsvík um yfir 14 milljarða króna í kjölfar þess að nýir samningar náðust milli félagsins og Landsvirkjunar, sem sér álverinu fyrir rafmagni. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi alþjóðlegu samstæðunnar fyrir síðasta ár.

Á fyrri hluta síðasta árs hafði hið íslenska álver verið fært niður í 0 í bókum samstæðunnar í kjölfar endurmats vegna „krefjandi markaðsaðstæðna“. Var núvirt tekjuflæði álversins út væntan líftíma þess metið sem svo að það stæði ekki undir jákvæðu bókfærðu virði til lengri tíma.

Samningurinn sem náðist nú á mánudag – hvers skilmálar eru trúnaðarmál, rétt eins og forvera hans – er í ársreikningnum sagður hafa gert álverið samkeppnishæft að nýju, auk þess sem hækkandi heimsmarkaðsverð áls hafi bætt stöðuna.

Niðurfærslunni hefur því að hluta til verið snúið við sem nemur 111 milljónum dala, eða um 14,4 milljörðum króna. Byggir sú upphæð á núvirðingu með 6,6% ávöxtunarkröfu að raunvirði.