Lyfjafyrirtækið Alvogen vann til verðlauna á alþjóðlegri lyfjasýningu í Madrid í síðustu viku en það var alþjóðlega fagtímaritið Generics Bulletin sem stóð fyrir verðlaununum.

Alvogen var tilnefnt í fjórum flokkum en það hlaut verðlaun fyrir fyrirtæki ársins í Evrópu fyrir uppbyggingu sína í Mið- og Austur Evrópu, meðal annars fyrir markaðssetningu á fjölmörgum líftæknilyfjum. Alvogen hefur vaxið hratt á helstu mörkuðum á svæðinu og þá sérstaklega í Rússlandi þar sem fyrirtækið keypti nýlega fimm hormónalyf af lyfjafyrirtækinu Bayer. Þetta er í annað sinn sem Alvogen er verðlaunað af tímaritinu en á síðasta ári hlaut fyrirtækið verðlaun sem Fyrirtæki ársins í Bandaríkjunum og fyrir Viðskiptaþróunarverkefni ársins í Evrópu.

Alvogen var með um 300 fm sýningarbás á sýningunni. Í básnum var meðal annars golfhermir þar sem Alvogen skoraði á samstarfsfyrirtæki sín í keppni. Spilað var á einum sögufrægasta golfvelli heims, St. Andrews í Skotlandi, þar sem sigurvegari fór holu í höggi.

„Við höfum gert mikilvæga viðskiptasamninga á þessarri sýningu undanfarin ár og hún er mikilvægur vettvangur fyrir okkur til að kynna starfsemi okkar og hitta nýja og núverandi samstarfsaðila. Svo er alltaf gaman að hljóta viðurkenningar og gaman að sjá að það sé tekið eftir því sem við erum að gera. Við höfum vaxið hratt undanfarin ár og rekstur fyrirtækisins gengur vel sem er ánægjulegt. Það eru fá fyrirtæki í dag sem hafa vaxið jafn hratt og við og eru að ná eins góðum árangri á sínum mörkuðum,“ segir Róbert Wessman forstjóri Alvogen.