Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,2% í 2,9 milljarða króna viðskiptum á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Hlutabréf þrettán félaga lækkuðu og bréf fimm félaga á aðalmarkaðnum hækkuðu í dag.

Sýn hækkaði mest af félögum aðalmarkaðarins eða um 3,5% í ríflega 90 milljóna króna veltu. Gengi Sýnar stendur nú í 60 krónum á hlut. Félagið tilkynnti í morgun um breytt skipurit og fækkun stöðugilda.

Sjóvá lækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 3,5% í 124 milljóna króna veltu. Gengi Sjóvá stendur nú í 33,2 krónum á hlut.

Á First North-markaðnum var mesta veltan með hlutabréf Alvotech sem hækkuðu um 4% í dag. Gengi líftæknifyrirtækisins stendur nú í 874 krónum og hefur hækkað um 11,1% frá því á þriðjudaginn síðasta þegar það náði sínu lægsta dagslokagengi frá skráningu í 786 krónum.