Hópur fjárfesta sem fylkja sér bak við Dov Charney hefur gert gert eigendum fatafyrirtækisins American Apparel yfirtökutilboð upp á 300 milljónir bandaríkjadala eða 39 milljarða íslenskra króna.

Dov Charney er fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækisins sem rekinn var frá störfum eftir að rannsókn sem gerð var á athæfi hans leiddi í ljós að hann hefði misnotað fé fyrirtækisins og verið iðinn við kynferðislega áreitni starfsfólks síns.

Fjárfestarnir á bak við yfirtökutilboðið, Hagan Capital og Silver Creek Capital Partners, segja tilboðið vera uppfærslu á fyrra tilboði - sem hljóðaði upp á 200 milljónir dala eða 26 milljarða króna.

Félagið lýsti sig gjaldþrota síðastliðinn október og sótti um að fá að endurskipuleggja sig fjárhagslega þannig að félagið yrði tekið af hlutabréfamarkaði og eign þess færð yfir á kröfuhafa stærstu hluta þess.

Óvíst er hvernig mál fara varðandi American Apparel, en greiningaraðilar hafa sagt að dómarinn í gjaldþrotamáli félagsins myndi endurskoða stöðu mála í kjölfar yfirtökutilboðsins.