Ákveðið hefur verið að endurvekja starfsemi Amerísk - íslenska viðskiptaráðsins (AMÍS) með það að markmiði að styrkja samskipti Íslands og Bandaríkjanna á sviði viðskipta, verslunar, menningar- og menntamála.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Viðskiptaráði en þar segir að mikill áhugi sé á því að ráðið taki til starfa á ný til að stuðla að bættum samskiptum og til að greiða fyrir viðskiptum og efla samvinnu fyrirtækja í löndunum tveimur. Þegar hafa 60 fyrirtæki skráð sig í ráðið.

Stofnfundur ráðsins verður haldinn á fimmtudag. Þar verður kjörin stjórn og formaður ráðsins. Þá mun þeir Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, Luis E. Arrega, sendiherra Bandaríkjanna og Michael B. Hancock, borgarstjóri í Denver í Colorado, ávarpa fundinn.

Í framhaldi af stofnfundinum verður efnt til hringborðsumræðna á vegum sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi, þar sem fjallað verður um viðskiptatækifæri í Denver og Colorado og þá möguleika sem íslensk fyrirtæki hafa á því svæði.