Árni Harðarson, aðstoðarforstjóri Alvogen, segist ekki skilja hvað liggur að baki ásökunum Halldórs Kristmannssonar á hendur Róberti Wessman og spyr sig hvort þær stafi af „andlegu ójafnvægi eða veikindum eða margra ára laumuhatri á manni sem hann vann mjög náið með“.

„Eða er það bara í fjárhagslegum tilgangi eins og svo margt sem Halldór hefur í gegnum tíðina gert? Mér er hins vegar vel ljóst að sama hvað Halldór segir þá er hann ekki að þessu fyrir einhverja aðra ótilgreinda starfsmenn Alvogen. Þetta er bara hann,“ skrifar Árni í aðsendri grein á Vísi. Hann segir að herferð Halldórs sé vel skipulögð enda sé hann sérfræðingur í fjölmiðlaumfjöllun og vel tengdur í þeim geira.

Árni segir jafnframt að Halldór titli sig ítrekað framkvæmdastjóra án þess að hafa nokkurn tímann verið það. Einnig hafi Halldór sökkt sér fjárhagslega því „hann varð að kaupa 1.000 fermetra hús fyrir sig og sína af því að það væri stærsta einbýlishús á Íslandi.

„Maður sem í gegnum árin hefur endurtekið beðið Róbert að lána sér pening eða hjálpa sér með lánveitingar þar sem hann hafi komið sér í peningavandræði. Maður sem hefur endurtekið í gegnum árin þegið slíka aðstoð því Róbert er of greiðvikinn þegar leitað er til hans.“

Árni segir markmið Halldórs vera að sannfæra sem flesta um að Róbert sé einhvers konar ofbeldismaður sem berji starfsfólk sitt. „Enginn hefur fundið þau vitni sem Halldór vísar í og enginn veit hvaða vitni blaðamenn vísa í um ofbeldistilvik.“

Sjá einnig: Réð öryggisvörð af ótta við Róbert

„Dettur einhverjum í hug að þetta sé satt? Ég hef unnið með Róberti í yfir 20 ár bæði sem starfsmaður og utanaðkomandi ráðgjafi og veit því betur.“

Árni telur að starfsfólk sé sömu skoðunar og vitnar í rannsókn White & Case sem framkvæmdi. „Ef rannsókn White & Case hefði leitt í ljós að ásakanir Halldórs væru sannar er nokkuð ljóst að ráðandi hluthafar í félaginu hefðu rekið Róbert Wessmann án þess að hika.“

Jafnframt segir hann Róbert ekki hafa neinn áhuga á að gera embættismönnum á Íslandi skrásveifu. Er þar vísað til frétta um að Róbert hafi viljað koma höggi Harald Johannessen, fyrrverandi ríkisslögreglustjóra, og annan ónafngreindan, háttsettan embættismann. „Það er bara bull,“ skrifar Árni. „Ef einhver embættismaður hefur ekki sinnt starfi sínu eða hefur brotið af sér í starfi deilir Róbert sjálfsagt þeirri skoðun með flestum að þá sé ástæða til að taka á slíku.“

Að auki hafnar hann því að félagið hafi gert starfslokasamninga vegna háttsemi Róberts eða stjórnunar hans. Jafnframt neitar hann því að félagið hafi lekið viðkvæmum heilsufarsupplýsingum um Halldór í fjölmiðla. „Halldór gerði það sjálfur þegar hann setti þær í lögfræðibréf sín og lak þeim til valinna fjölmiðla.“

„Yfir 800 fyrrverandi starfsmenn Actavis hafa gengið til liðs við Alvogen og Alvotech. Þetta fólk var ekki að kaupa köttinn í sekknum eða ana út í óvissu. Það hafði unnið með Róberti áður og vissi að það er gott að vinna með manninum og veit að hann leggur mikið upp úr því að starfsmenn hafi það gott og líði vel. Þetta er ekki væminn frasi heldur einfaldlega miklu líklegra til árangurs í rekstri fyrirtækja.“

Árni viðurkennir að Róbert hafi sent ljót smáskilaboð fyrir fimm árum en telur þau ekki við koma Alvogen eða Alvotech. Þetta sé löngu afgreitt mál á milli Róberts og þeirra sem fengu skilaboðin og engir eftirmálar af því.

„En mikið óskaplega er ég orðinn þreyttur á að lesa ósannindi Halldórs í fjölmiðlum, hvort sem það er satt eða logið að hann sé með öryggisverði fyrir utan 1000 fermetra húsið sitt,“ segir Árni að lokum.