Anna Bjarney Sigurðardóttir, sem var ráðin framkvæmdastjóri útibúaþróunar og einstaklingssviðs Landsbankans í janúar 2008, mun ekki halda framkvæmdastjóratitlinum eftir að allar stöður framkvæmdastjóra voru auglýstar.

Hefur hún sent samstarfsfólki sínu tölvubréf þar sem fram kemur að hún sé að hætta í bankanum.

Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans hefur boðað til fundar klukkan þrjú í dag þar sem greint verður frá ráðningum í stöður framkvæmdastjóra. Með brotthvarfi Önnu Bjarneyjar verður enginn sem var í forystusveit bankans fyrir hrun framkvæmdastjóri.

Guðmundur Guðmundsson, sem var framkvæmdastjóri upplýsinga- og tæknimála, var boðin millistjórnendastaða sem hann hefur þegið samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins.

Uppfært kl. 16:07

Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, segir að Önnu Bjarneyju hefði verið boðin framkvæmdastjórastaða. Hún hefði hins vegar ekki þáð starfið og ákveðið að hætta í bankanum.