Boeing heldur áfram að stokka upp í yfirstjórn félagsins í kjölfar 737 Max málsins. J. Michael Luttig, sem sérstakur lögfræðilegur ráðgjafi Dennis Muilenburg, fráfarandi forstjóra Boeing, í tengslum við málefni 737 Max flugvélanna mun láta af störfum um áramótin. Seattle Times greinir frá.

Muilenburg var rekinn sem forstjóri Boeing á Þorláksmessu vegna 737 Max málsins.

Lutting var yfirlögfræðingur Boeing frá árinu 2006 fram til maí á þessu ári þegar hann varð ráðgjafi forstjóra Boeing vegna 737 Max málsins. Lutting, sem er 65 ára, er sagður vera á leið á eftirlaun.

Tvö banvæn flugslys á 737 Max flugvélunum síðasta vetur, þar sem allir um borð létust, urðu til þess að flugvélarnar voru kyrrsettar. Ekki er ljóst hvenær vélunum verður hleypt í loft á ný.

Muilenburg er sagður hafa verið seinn að bregðast við flugslysunum og að viðurkenna að hönnunargalli flugvélanna ætti þátt í slysunum. Yfirmaður flugvélaframleiðslusviðs Boeing, Kevin McAllister, var sá fyrsti í yfirstjórn Boeing, til að láta af störfum vegna málsins. Hann var rekinn í október.

Luttig réð hóp lögfræðinga utan fyrirtækisins til að verja stjórnendur og starfsmenn Boeing vegna sakamálarannsókna og fyrirhugaðra dómsmála sem tengjast framleiðslu flugvélanna. Bandaríska dómsmálaráðuneytið, samgönguráðuneytið og alríkislögreglan FBI, eru öll að rannsaka hönnun, vottun og framleiðsluferli 737 Max flugvélanna.