Það styttist í miklar breytingar hjá færeyska olíuleitarfélaginu Atlantic Petroleum, sem skráð er í Kauphöll Íslands. Brátt fer það að uppskera árangur erfiðisins eftir áralanga leit að olíu. Vænst er tekna á þessum fjórðungi ársins sem ætti að vera hluthöfum mikið fagnaðarefnið því félagið hefur verið stafrækt frá 1998 og er enn rekið án sölutekna. Þótt væntanlegar tekjur séu veigamesta breytinginmun félagið einnig endurskipuleggja lán sín, því fram að þessu hefur það fjármagnað sig með skammtímalánum og eigin fé. Auk þess er hlutafjáraukning á döfinni.

Teitur Samuelsen, fjármálastjóri Atlantic Petroleum, segir í samtali við Viðskiptablaðið að fyrirtækið hafi keypt hlutdeild í þeim svæðum, sem senn munu skapa tekjur, árið 2003 þegar olíutunnan var á bilinu 20-25 dollarar. Olíuverð hefur hækkað mikið síðan en Teitur bendir á að kostnaður við verkefni hafi einnig aukist til muna. Hækkunin fer því ekki öll í vasa færeyska fyrirtækisins. Samkvæmt upplýsingum frá Bloomberg- fréttaveitunni er verðið á olíutunnunni yfir 120 dollara. Teitur segir erfitt að spá fyrir um verðþróun á olíu.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .