Kauphöllin, NASDAQ OMX Iceland hf. hefur samþykkt umsókn Arctica Finance hf. um aðild að hlutabréfa- og skuldabréfamörkuðum Kauphallarinnar. Arctica Finance er jafnframt fyrsti kauphallaraðilinn síðan 1. ágúst 2007 sem kemur í Kauphöllina. Kauphallaraðilar eru núna 18 talsins.

Arctica Finance hf. var stofnað árið 2009 og er verðbréfafyrirtæki sem starfar samkvæmt heimild og undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Arctica Finance byggir þjónustu sína á því að veita fagfjárfestum, fyrirtækjum og stofnunum ráðgjöf í gegnum þrjú svið, Eignastýringu, Fyrirtækjaráðgjöf og Markaðsviðskipti.

Stefán Þór Bjarnason, framkvæmdastjóri segir Arctica hafa eflt starfsemi sína jafnt og þétt frá stofnun. "Tilkoma eignastýringarsviðs og markaðsviðskipta var mikilvægur áfangi á síðasta ári og útvíkkun starfsleyfis nú nýverið til að annast umsjón með útboðum fjármálagerninga og skráningu þeirra í kauphöll var kærkomin viðbót. Kauphallaraðgangurinn nú styrkir enn frekar þjónustuframboð fyrirtækisins. “

Aðildin verður virk á morgun miðvikudag. Auðkenni Arctica í INET viðskiptakerfinu verður ARF.