Fram kom í máli Ágústs Guðmundssonar, stjórnarformanns Bakkavarar, á uppgjörskynningu fyrirtækisins að árið 2006 fer mjög vel af stað á meginlandinu og hefur sala félagsins aukist um 12% á fyrstu 8 vikum ársins miðað við sama tímabil á síðasta ári. Einnig hefur sala í Bretlandi farið vel af stað á sama tíma og er aukningin þar um 10%.

Í Hálffimm fréttum KB banka er bent á að einnig hafi kom fram hjá Ágústi að þær hagræðingaraðgerðir sem félagið hefði lagt í á meginlandi Evrópu eftir sameininguna við Geest væru farnar að skila árangri. Hefði hluti starfseminnar þegar á 4. ársfjórðungi 2005 skilað jákvæðri rekstrarniðurstöðu.

Í Hálffimm fréttum kom einnig fram að á árinu 2006 mun Bakkavör halda áfram aðgerðum við að hagræða í rekstri til þess að draga úr kostnaði. Þá er markaðurinn í Bretlandi ennþá á höndum margra minni aðila og telja stjórnendur Bakkavarar ljóst að áframhaldandi samþjöppun muni eiga sér stað. Ætlar félagið sér að vera virkur þátttakandi í þeim aðgerðum. Má því búast við einhverjum minni yfirtökum hjá félaginu á árinu og er ekki ólíklegt að félagið muni reyna að ná í minni félög á þeim mörkuðum sem þeir eru ekki þegar markaðsleiðandi á.