Arion banka opnar á morgun ráðgjafaþjónustu fyrir þá viðskiptavini sem eiga í greiðsluvanda.

Fréttatilkynning Arion banka:

Arion banki opnar laugardaginn 6. nóvember sérhæfða ráðgjafaþjónustu þar sem markmiðið er að koma sem best til móts við þarfir viðskiptavina sem eiga í greiðsluvanda. Hver viðskiptavinur fær sinn eigin ráðgjafa sem vinnur með honum allt ferlið og finna þeir í sameiningu þá lausn sem hentar hverju sinni. Ráðgjafinn fylgir síðan málum viðkomandi einstaklings eftir þar til allir lausir endar eru frágengnir.

Í nýju ráðgjafaþjónustunni hefur sérfræðiþekkingu bankans á skuldamálum einstaklinga verið komið fyrir á einum stað til að auka skilvirkni og bæta árangur. Jafnframt hafa ábendingar viðskiptavina komið í góðar þarfir við hönnun og framsetningu þjónustunnar. Markmiðið er að allir sem eiga í greiðsluvanda hafi fengið úrlausn sinna mála innan nokkurra mánaða.

Starfsfólk ráðgjafaþjónustunnar mun á næstu vikum og mánuðum eiga frumkvæði að samskiptum við þá viðskiptavini sem eiga í verulegum greiðsluvanda. Þessir einstaklingar geta einnig leitað til ráðgjafaþjónustunnar að eigin frumkvæði eða fengið ráðgjöf um þær lausnir sem í boði eru í öllum útibúum bankans. Þegar hefur Arion banki aðstoðað um 14.000 viðskiptavini í greiðsluvanda.

Ráðgjafaþjónustan verður til húsa á 2. hæð við útibú Arion banka við Garðatorg 5 í Garðabæ og verður opin alla virka daga frá kl. 9 - 16.