Arion banki býður nú einstaklingum og heimilum verðtryggða sparnaðarleið sem er aðeins bundin í 90 daga en ekki þrjú ár eins og lög hafa hingað til kveðið á um. Vöxtur verðtryggður er nýr verðtryggður sparnaðarreikningur Arion banka með aðeins 90 daga bindingu. Þetta er fyrsti sparnaðarreikningur sinnar tegundar hér á landi, að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá bankanum.

Þar segir að Arion banki geti boðið upp á þessa nýju sparnaðarleið vegna breytinga á lögum sem taka gildi 1. júní næstkomandi. Lagabreytingin felur í sér að verðtryggð innlán þurfa ekki lengur að vera bundin í þrjú ár. Eftir 1. júní verður því hægt að óska eftir úttekt af sparnaðarreikningnum sem verður greidd út 90 dögum síðar.

Viðskiptablaðið greindi frá lagabreytingunni í mars sl. og tók Benedikt Gíslason, bankastjóra Arion banka, tali um breytinguna. Hann sagði bankann fagna afnámi lágmarks binditíma verðtryggðra innlána og lánstíma útlána.

„Við teljum að með þessari breytingu verði til skilvirkara vaxtaróf verðtryggðra vaxta sem er til hagsbóta fyrir sparifjáreigendur, sem og lántakendur. Til dæmis gæti þetta leitt til þess að kjör á verðtryggðum útlánum með breytilegum vöxtum batni í samanburði við önnur lánaform. Það leiðir svo til þess að lántakendur hafa úr fleiri góðum kostum að velja,“ sagði Benedikt.

Þá kvaðst Benedikt reikna með því að Arion banki myndi fljótlega eftir gildistöku vera tilbúinn með nýjar lánaafurðir sniðnar að þessum breytingum. Hann stóð við þau orð sín og gott betur með því að kynna nýja verðtryggða sparnaðarreikninginn til leiks þremur vikum áður en lagabreytingin tekur gildi.

Í fréttatilkynningu Arion banka er bent á að síðustu 12 mánuði hafi verðbólga mælst 9,9%. Því hafi reynst erfitt að fá vexti á sparnað sem haldi í við verðbólgu, án þess að festa sparnaðinn í þrjú ár. „Með því að leggja inn á þennan nýja verðtryggða sparnaðarreikning Arion banka heldur sparifé betur verðgildi sínu þar sem innistæðan hækkar eða lækkar í takti við verðbólgu. Auk verðtryggingar ber reikningurinn 0,1% vexti,“ segir í tilkynningunni.