Arnar Pálsson hefur hafið störf hjá Capacent á Íslandi. Hann starfaði áður sem sérfræðingur í félagsmálaráðuneytinu og ráðgjafi hjá ParX – viðskiptaráðgjöf IBM.

Arnar er ráðgjafi og segir í tilkynningu að hann sé með yfirgripsmikla þekkingu á stjórnun og stefnumótun ásamt stefnumörkun í rafrænni stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga.

Í verkefnum sínum hefur Arnar starfað fyrir fjölda ráðuneyta, stofnana og sveitarfélaga á sviði stefnumótunar og rekstrar. Arnar hefur einnig sinnt rekstrar- og stjórnsýsluúttektum og tekið að sér verkefnisstjórnun á sviði rafrænnar stjórnsýslu.

Hjá Capacent mun Arnar meðal annars taka þátt í að þróa og útfæra þjónustu Capacent fyrir opinbera aðila. Hann mun bjóða fram ráðgjöf sína í hagræðingarverkefnum og í þeim stjórnskipulagsbreytingum sem framundan eru og leiða af breyttu umhverfi opinbers rekstrar hérlendis.

Arnar er MSc í stjórnun frá Edinborgarháskóla og MA í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands.