*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Innlent 5. janúar 2019 19:01

Myndir: Viðskiptaverðlaunin 2018

Múgur og margmenni var við afhendingu viðskiptaverðlaunanna til Marel og Árna Odds Þórðarsonar á dögunum.

Ritstjórn
Trausti Hafliðason, ritstjóri Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Marel og Árni Oddur Þórðarson, forstjóri fyrirtækisins, fengu viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar fyrir árið 2018. Árni Oddur tók við verðlaununum úr hendi Bjarna Benediktssonar fjármálaog efnahagsráðherra. Athöfnin fór fram á Kolabrautinni í Hörpu á fimmtudaginn í síðustu viku en þann dag kom einnig út tímaritið Áramót.

Á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 jukust tekjur Marel um 17% og hagnaðurinn um 34%. Árangur Marel á síðustu áratugum hefur verið mikill. Fyrirtækið hefur vaxið úr því að vera lítið sprotafyrirtæki í að vera hátæknifyrirtæki, sem er leiðandi á alþjóðavísu í þjónustu við ört stækkandi kjúklinga-, kjöt- og fiskiðnað.

Rætur Marel liggja djúpt í íslenska vísindasamfélaginu. Fræjunum var sáð árið 1978 þegar nokkrir vísindamenn og frumkvöðlar þróuðu fyrstu rafeindavogina fyrir íslenskan fiskiðnað í húsakynnum Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands. Fyrirtækið Marel var síðan formlega stofnað árið 1983. Eins og algengt er með sprotafyrirtæki gekk á ýmsu fyrstu árin, tekjur voru sveiflukenndar og vöxturinn hægur. Árið 1992 voru hlutabréf félagsins skráð í Kauphöllina en þá voru starfsmennirnir 45 talsins og tekjurnar um 6 milljónir evra.

Marel hefur vaxið mikið frá þessum tíma. Sá sem leitt hefur fyrirtækið í gegnum mesta vaxtarskeiðið er Árni Oddur. Hann var stjórnarformaður frá árinu 2005 til 2013 en síðan þá hefur hann verið forstjóri félagsins.

Árið 2005 námu tekjur Marel um 130 milljónum evra en á árinu 2018 námu tekjurnar um 1,2 milljarða evra og eru starfsmennirnir orðnir um sex þúsund talsins í yfir 30 löndum víðsvegar um heim. Langtímamarkmið Marel er að árið 2026 verði veltan komin í þrjá milljarða evra og starfsmennirnir orðnir 12 þúsund.


Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, flytur ávarp eftir að hafa tekið við viðskiptaverðlaununum.


Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra afhendir Árna Oddi Þórðarsyni viðskiptaverðlaunin árið 2018.


Árni Oddur, forstjóri Marel, ásamt eiginkonu sinni Eyrúnu Lind Magnúsdóttur, verkefnisstjóra í Háskóla Íslands og foreldrum sínum þeim Mörtu Maríu Oddsdóttir og Þórði Magnússyni, stjórnarformanni Eyris Invest.


Fjöldi fólks lagði leið sína í Hörpu til að fylgjast með verðlaunaafhendingunni.


Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar og fyrrverandi forstjóri ÍSAM, Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, og Árni Sigurðsson, framkvæmdastjóri stefnumótunar hjá Marel.


Haukur Þór Hauksson, verkefnastjóri hjá Gamma, og Magnús Árni Skúlason hagfræðingur hjá Reykjavík Economics.


Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, Þorkell Sigurlaugsson, stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands, og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

Eliza Jean Reid forsetafrú og Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.