Eftir að Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna, hafði farið í andsvör við ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á Alþingi í gær sagðist hann ekki nenna þessu og ætla heim. Þá hafði Jóhanna sett fram efasemdir um málsmeðferð þingmannanefndarinnar sem leggur til að fjórir fyrrum ráðherrar verði ákærðir fyrir landsdómi.

Árni Þór fór þá í ræðustól Alþingis og sagði að hann hefði ekki heyrt betur en að í orðum forsætisráðherra hefði falist ákveðið vantraust á störfum þingmannanefndarinnar. Jóhanna svaraði því þannig að í orðum hennar hefði ekki falist neitt vantraust. Hún hefði rétt á að tjá sína persónulega skoðun á málinu.

Ræða Jóhönnu kom þingmönnum á óvart og sérstaklega þeim sem skipa flokk Vinstri grænna. Heyrðist meðal annars muldrað um stjórnarslit upphátt meðal þeirra þingmanna VG sem stystan starfsaldur hafa og hafa jafnvel nýlega gengið í flokkinn. Árna Þór var nóg um þessa ræðu Jóhönnu og sagði einfaldlega að hann nennti þessu ekki og væri farinn heim.