Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins (SA), segir það ekki láta á sig fá þótt Már Guðmundsson seðlabankastjóri hafi baunað á sig á vaxtaákvörðunarfundum.

„Ég hef fengið eina eða tvær pillurnar sendar á vaxtaákvörðunarfundum frá seðlabankastjóra,“ segir Ásdís og hlær. Hún segir þetta þó hafa haft lítil áhrif á sig. „Þetta skiptir mig engu máli, meira máli skiptir að standa fast á sínu og hafa trú á því sem maður er að gera.“

Ásdís var 32 ára gömul þegar hún tók við sem forstöðumaður Greiningardeildar Arion banka sem verður að teljast ungt. Hún segist lítið velta sér upp úr því að hún hafi verið kona í þessari stöðu en segist þó hafa þurft að sanna sig í gegnum árin en ekki endilega af því hún er kona. „Ég tók við ung sem forstöðumaður og fann að ég þurfti að sanna mig. Það tók sinn tíma.“

Ítarlegt viðtal við Ásdísi má lesa í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins.