Framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Georgieva Kristalina, segir samdrátt heimshagkerfisins þegar hafinn , og ástandið jafn slæmt eða verra en árið 2009 í kjölfar alþjóðlegu fjármálakrísunnar.

Lengd og dýpt samdráttarskeiðsins muni ráðast af því hversu vel takist að halda útbreiðslu faraldursins í skefjum, og hversu áhrifaríkar og samstilltar aðgerðir stjórnvalda um allan heim verða.

Kristalina segist fyllast von við það að sjá þjóðarleiðtoga heimsins sýna alvarleika málsins skilning, og því að baráttan vinnist ekki nema niðurlögum veirunnar verði ráðið allsstaðar.

Þótt í mikinn samdrátt stefni til skamms tíma spáir sjóðurinn miklum viðsnúningi á næsta ári, en aðeins að því gefnu að vel takist til að koma í veg fyrir að lausafjárvandræði verði að rekstrarvanda. Hættan sé að fjöldagjaldþrot og uppsagnir grafi undan bæði viðspyrnu hagkerfisins og sjálfum samfélagssáttmálanum.

Stjórnvöld víðsvegar um heim hafi hinsvegar tekið ástandið föstum tökum, og þegar hafi 20 stærstu hagkerfi heims tilkynnt aðgerðir upp á 5 þúsund milljarða dala – um 700 þúsund milljarða króna eða sem samsvarar um 6% heimsframleiðslu – sín á milli.