Atkvæði voru greidd í peningastefnunefnd vegna stýrivaxtaákvörðunar 7. maí sl. Þrír nefndarmanna greiddu atkvæði með tillögu seðlabankastjóra um 2,5 prósenta lækkun stýrivaxta en tveir vildu ganga lengra og lækka vexti um 3 prósentur. Þetta kemur fram í fundargerð peningastefnunefndar, en ekki kemur fram hvernig hver og einn greiðir atkvæði. Í nefndinni sitja þrír starfsmenn Seðlabankans,þeir Svein Harald Øygard, seðlabankastjóri, Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, og Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur. Tveir nefndarmenn koma utan frá, þau Anne Sibert, prófessor, og Gylfi Zoega, prófessor. Umræður fóru fram um vaxtalækkun á bilinu 1,5 til 2,5 prósentur.

Frekari stýrivaxtalækkun í júní háð trúverðugri stefnu í ríkisfjármálum

Í fundargerðinni segir að nefndarmenn hafi verið sammála um að varfærin en þó veruleg slökun peningastefnunnar myndi er fram liðu stundir stuðla að efnahagsbata. Þá segir að peningastefnunefndin vænti þess að fleiri þættir efnahagsáætlunarinnar verði komnir til framkvæmda þegar nefndin komi næst saman í júní. Verði gengisþróun krónunnar hagstæð og aðgerðir í fjármálum hins opinbera eins og gert sé ráð fyrir, þá vænti nefndin þess að hægt verði að lækka stýrivexti umtalsvert til viðbótar í júní, en gerir ráð fyrir hægari lækkun eftir það. Lækkun stýrivaxta geti þó aðeins komið til hafi trúverðug áætlun um aðgerðir stjórnvalda varðandi fjármálastefnuna litið dagsins ljós.

Bankarnir þurfa að setja fram viðskiptaáætlun

Þá segir að nefndarmenn hafi verið einhuga um að þótt endurskipulagning fjármálakerfisins hefði miðað áleiðis væri nauðsynlegt að grípa til ýmissa aðgerða í því skyni að endurreisa lífvænlegt bankakerfi. Lækka þurfi kostnað, minnka umfang, draga úr gjaldeyrisáhættu og sjá til þess að lánskjör endurspegli raunverulegan fjármögnunarkostnað bankanna. Almennt þurfi bankarnir að setja fram viðskiptaáætlun um leiðir til hagnaðar í rekstri. Koma þurfi á gagnsæju og ábyrgu fyrirkomulagi eignaumsýslu. Loks taldi nefndin mikilvægt að lækkun stýrivaxta yrði fylgt eftir með lækkun innlánsvaxta, helst meiri en sem nemur lækkun stýrivaxta.