Færeyska flugfélagið Atlantic Airways fagnar í þessari viku 25 ára afmæli sínu en félagið er sem kunnugt er skráð í Kauphöllina hér á landi. Félagið hóf rekstur þann 28. mars árið 1988. Fyrsta flug félagsins var með BA146 vél frá Þórshöfn til Kaupmannahafnar.

Flugfloti félagsins samanstendur í dag af tveimur BA-RJ100 og tveimur BA-RJ85 vélum og loks nýrri Airbus A319 vél sem félagið fékk afhenda í mars í fyrra. Þá rekur félagið einnig tvær Bell 412 þyrlur. Félagið heldur úti áætlunarflugi til Reykjavíkur, Bergen, Billund og Kaupmannahafnar en auk þess flýgur félagið til Álaborgar, Barcelona og London yfir sumartímann. Í tilefni afmælisins verður haldin móttaka í flugskýli félagsins í Vágar í dag.