Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru 8.200 atvinnulausir í febrúar á þessu ári. Árstíðaleiðrétt hlutfall atvinnulausra var því 3,5%, hlutfall starfandi einstaklinga 78,4% og atvinnuþátttaka 81,3%.

Atvinnuleysi minnkaði um 0,7 prósentustig á milli mánaða á sama tíma og hlutfall starfandi jókst um 0,6 prósentustig en atvinnuþátttaka stóð nánast í stað.

Skráð atvinnuleysi hækkaði úr 3,6% í 3,8% milli desember og janúar og hafði þá ekki verið hærra síðan í maí 2022. Til samanburðar var atvinnuleysi 3,7% í janúar 2023.

Alls voru þá 4.229 erlendir atvinnuleitendur án atvinnu í lok janúar og hafði þeim fjölgað um 234 frá desember. Hlutfall erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá var um 55% í lok janúar.