Á fyrsta ársfjórðungi 2015 voru að meðaltali 8.000 manns án vinnu og í atvinnuleit eða 4,3% vinnuaflsins. Atvinnuleysi mældist 4,4% hjá konum og 4,2% hjá körlum. Samanburður fyrsta ársfjórðungs 2015 við sama ársfjórðung 2014 sýnir að atvinnulausum fækkaði um 2.500 manns og hlutfallið lækkaði um 1,5 prósentustig. Þetta kemur fram í nýrri frétt Hagstofu Íslands .

Þar segir að á fyrsta ársfjórðungi 2015 hafi að jafnaði verið 187.300 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði sem jafngildir 81% atvinnuþátttöku. Frá fyrsta ársfjórðungi 2014 hefur fólki á vinnumarkaði fjölgað um 5.400 og atvinnuþátttakan aukist um 1,6 prósentustig eða úr 79,4%.

Atvinnuþátttaka kvenna var 77,9% en karla 84%. Borið saman við sama ársfjórðung 2014 þá var hlutfall kvenna á vinnumarkaði 75,9% og hlutfall karla var 82,9%.

Af þeim sem voru atvinnulausir á fyrsta ársfjórðungi 2015 voru að jafnaði 4.300 manns búnir að vera atvinnulausir í 2 mánuði eða skemur eða 53,7% atvinnulausra, sem er 2,3% af vinnuaflinu. Á fyrsta ársfjórðungi 2014 höfðu 5.300 verið atvinnulausir í 2 mánuði eða skemur, sem þá var 50,5% atvinnulausra eða 2,9% vinnuaflsins.

Þeir sem hafa verið atvinnulausir í 12 mánuði eða lengur eru skilgreindir sem langtímaatvinnulausir. Á fyrsta ársfjórðungi 2015 höfðu um 1.500 manns verið langtímaatvinnulausir eða 18,4% atvinnulausra samanborið við 1.700 manns eða 15,8% atvinnulausra á fyrsta ársfjórðungi 2014.