Atvinnuleysi mældist 5,2% í október síðastliðnum. Þetta er 0,3% meira en í september og fyrsta skiptið síðan í maí sem atvinnuleysi fer yfir 5%. Á sama tíma í fyrra var 7,5% atvinnuleysi.

Fram kemur í samantekt Vinnumálastofnunar að að meðaltali hafi 8.187 verið atvinnulausir í mánuðinum. Þeim fjölgaði um 305 manns á milli mánaða.

Atvinnuleysi var 5,8% á höfuðborgarsvæðinu í október. Það var 5,6% í september. Þá fór atvinnuleysi úr 7,8% á Suðurnesjum í september í 8,9% í síðasta mánuði. Minnst var atvinnuleysið á Norðurlandi vestra eða 1,4%. Fram kemur í umfjöllun Vinnumálastofnunar um málið að atvinnulausum fjölgaði á landsbyggðinni og fór hlutfallið úr 3,7% í september í 4,1% í síðasta mánuði.

Atvinnuleysið var 4,7% meðal karla og fór úr 4,4% í september. Það var 5,4% á meðal kvenna í september og fór í 5,8% í október.