Tilkynnt var um aukna útgáfu krónubréfa í morgun, en þýski ríkisbankinn KFW jók við útgáfu sína um 3 milljarða króna. Í Morgunkorni Glitnis er bent á að krónubréfakaup eru núna margfalt betri kostur en áður þar sem væntingar um gengislækkun krónunnar hafa gengið eftir.

"Hætt er þó við að margir hugsanlegir kaupendur hafi verið fældir á brott með neikvæðri umfjöllun um íslenska hagkerfið og í ljósi þess að nær allir fyrri kaupendur krónubréfa hafa tapað á bréfunum. Líkur virðast því á óverulegri útgáfu krónubréfa á næstunni," segir í Morgunkorninu.

Gengisvísitala krónunnar stendur nú í um 124,1 stigum og kostar evra um 90 krónur. Það rímar vel við spá greiningardeildar Glitnis um að vísitalan muni að meðaltali standa í 125 stigum á þessum fjórðungi. "Við reiknum þó með að gengi krónunnar muni gefa eftir er líður á árið. Spáum við að gengisvísitalan muni að meðaltali standa í um 135 stigum á síðasta fjórðungi ársins og myndi evran þá að kosta um 98 krónur. Á næsta ári teljum við þó að gengi krónunnar muni hækka á ný og vísitalan muni standa í um 120 stigum að meðaltali á síðari helmingi ársins. Þá myndi evran kosta um 87 krónur miðað við núverandi krossgengi," segir í Morgunkorni Glitnis.