Á síðasta ári seldust samtals 19,6 milljónir lítra af áfengi í verslunum ÁTVR og jókst salan um tvö prósent á milli ára. Frá árinu 2011 hefur heildarsala áfengis aukist um sex prósent en hún er enn nokkuð minni en þegar mest var árið 2008 þegar seldir voru 20,4 milljónir áfengislítra.

Þótt magnbreyting hafi ekki verið mikil í sölu áfengis síðastliðin ár þá merkir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, einhverjar breytingar í neyslumynstri og nefnir þar helst aukinn áhuga á fjölbreyttari bjórtegundum en áður.

„Við sjáum mikinn áhuga á öðruvísi bjór,“ segir hún. „T.d. í þeim flokki sem við skilgreinum sem öl höfum við séð 18% aukningu á milli ára. Ég fæ líka þá tilfinningu frá verslununum að fólk er síður að festa sig við eitt vörumerki þegar kemur að bjór,“ segir hún.

Lagerbjórar eru, eftir sem áður, vinsælasta áfengistegundin sem seld er í verslunum ÁTVR. Sem dæmi seldust í síðasta mánuði 1.176.322 lítrar af lagerbjór í verslunum ÁTVR. Þar á eftir seldust 154.676 lítrar af rauðvíni, 86.934 lítrar af hvítvíni og 34.595 lítrar af öli.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .