Samkvæmt Hagstofu Íslands jókst landsframleiðsla á þriðja ársfjórðungi ársins að raungildi um 10,2% frá sama ársfjórðungi í fyrra en það er mesta aukning sem mælst hefur frá því á fjórða ársfjórðungi 2007. Hagvöxtur á fyrstu níu mánuðum ársins mældist 6,2%. Magnaukning landsframleiðslunnar nú skýrist að verulegu leyti af framlagi utanríkisviðskipta en útflutningur jókst að raungildi um 16,4% samanborið við sama tímabil árið 2015.

Í frétt Greiningar Íslandsbanka er um að ræða kröftugan hagvöxt og þann hraðasta sem mælst hefur í núverandi uppsveiflu skv. tölum hagstofunnar. Hagvöxturinn er jafnframt sá mesti sem mælst hefur í nokkru landi innan EES-svæðisins og nokkuð yfir því sem flestar opinberar spár hljóðuðu upp á fyrir árið í heild en greiningaraðilar spáðu að meðaltali 5% vexti. Að sögn Íslandsbanka benda tölurnar til þess að framleiðsluspennan í hagkerfinu hafi myndast nokkuð hraðar en Seðlabankinn gerði ráð fyrir í nýjustu spá sinni og að hagvaxtartölurnar styðji við þá skoðun að peningastefnunefnd haldi stýrivöxtum bankansóbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi sínum.

Erum í allt annarri stöðu en önnur ríki

Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Íslandsbanka, segir tölur fyrir fyrstu níu mánuði ársins benda til þess að á árinu verði meiri vöxtur í útflutningi og fjárfestingu en menn höfðu búist við. „Þetta er mesti hagvöxtur sem við höfum séð hérna síðan 2007 og þetta er mun meiri hagvöxtur en við sjáum í nálægum ríkjum sem sýnir bara að við erum í allt annarri stöðu en flestir.“

Að flestu leyti sé þessi mikli hagvöxtur jákvæður, segir Ingólfur. „Auknar gjaldeyristekjur, sérstaklega mikill vöxtur í þjónustuútflutningi tengdum ferðaþjónustu og mjög góð erlend staða þjóðarbúsins hjálpar til. Fjárhagsleg staða heimilanna er að batna mikið, kaupmáttur ráðstöfunartekna er að aukast verulega, atvinnuleysi minnkar og við erum aftur farin að flytja inn vinnuafl. Þetta birtist allt í einkaneyslutölunum auk þess sem bættur hagur heimila og fyrirtækja birtist í auknum fjárfestingum, þ.e, íbúðarfjárfestingum en einnig fjárfestingum í atvinnuvegum eins og ferðaþjónustu og sjávarútvegi.

Þetta er ekki skuldadrifinn hagvöxtur en skuldahlutföll hafa verið að lækka bæði hjá fyrirtækjum og heimilum. Menn eru ekki að taka út góðærið fyrirfram,“ útskýrir Ingólfur. Hann segir auk þess ekki ójafnvægi í hagkerfinu heldur sé afgangur af utanríkisviðskiptum meiri en sést hefur lengi og verðbólgan hafi haldist lág. „Erlend skuldastaða þjóðarbúsins er orðin jákvæð og við þurfum að fara aftur til síldaráranna og jafnvel lengra til að finna viðlíka stöðu. Ástandið er allt annað en við sáum t.d. í síðustu uppsveiflu þegar það var miklu meira ójafnvægi í hagkerfinu sem kallaði á einhvers konar leiðréttingu,“ segir Ingólfur.

Svo hraður vöxtur hringir viðvörunarbjöllum

Henný Hinz, deildarstjóri hagdeildar ASÍ, segir svo hraðan hagvöxt hringja ákveðnum viðvörunarbjöllum. „Myndin lítur ágætlega út og það eru ýmis jákvæð teikn á lofti en við vitum það náttúrlega að það skapar einnig ýmsar áskoranir fyrir okkur ef vöxturinn verður of mikill og hraður. Þetta undirstrikar enn fremur mikilvægi þess að það verði haldið hér á með réttum hætti hvað varðar hagstjórnina. Það er mikil spenna og við verðum að vanda til verka hvað það varðar og læra af því sem áður hefur misfarist,“ segir Henný.

Spár ASÍ kveða á um áframhaldandi vöxt til ársins 2018 og að sögn Hennýjar má búast við því að staðan verði áfram vænleg. „Þrátt fyrir spárnar þá vitum við auðvitað að það eru ýmsir óvissuþættir. Ferðaþjónustan leikur lykilhlutverk um þessar mundir og þó að allt bendi til þess að það verði áframhaldandi vöxtur vakna auðvitað spurningar eins og hvað gerist ef gengið heldur áfram að styrkjast svona og hvort það muni hafa áhrif á ferðaþjónustuna. Auðvitað myndi það áhrif á hagkerfið í heild sinni enda ferðaþjónustan orðin svo stór hluti þess,“ segir Henný