Nýskráningar bifreiða hafa aukist á milli mánaða en nýskráningar í júní voru 2.287 talsins. Skráningum fjölgar um nærri helming milli mánaða en dragast saman um 25% frá júní 2007 segir í Vegvísi Landsbankans.

Í Vegvísinum segir að fyrstu sex mánuði ársins hafi verið skráðar 9.694 bifreiðar en á sama tíma í fyrra voru þær 11.382 talsins, sem er 15% samdráttur.

Aukning milli mánaða er einungis 6,3% ef tölurnar eru leiðréttar eftir árstíma. Tólf mánaða breyting er þá neikvæð um 30%.

Nýskráningar bifreiða eru einnig þriðjungi færri á öðrum ársfjórðungi þessa árs miðað við í fyrra..

Í Vegvísinum segir að síðustu tólf mánuði hafi krónan veikst um 29%. Fylgnin á milli gengisþróunar og nýskráninga sé eins og gefur að skilja mjög mikil og hefur það sýnt sig undanfarið. Þykir þetta benda til minni einkaneyslu og má búast við að svo verði áfram.