Ávaxtabíllinn hlaut í dag Fjöreggið 2008 við athöfn í Iðnó þar sem Matvæladeginum er fagnað.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum iðnaðarins.

Verðlaunin eru veitt fyrir lofsvert framtak á matvælasviði og voru afhent við upphaf ráðstefnunnar Íslenskar matarhefðir og héraðskrásir.

„Ávaxtabíllinn hefur unnið mikið frumkvöðlastarf til að auðvelda aðgang að hollum matvælum og vakið verðskuldaða athygli fyrir,“ segir í tilkynningunni.

Í úrskurði dómnefndar segir að einna þyngst hafi vegið sá sýnilegi árangur sem Ávaxtabíllinn hafi náð í að gera ávexti að daglegri neysluvöru á vinnustöðum. Fyrirtækið hafi tekið ráðleggingar um að neyta meiri ávaxta einu skrefi lengra og beinlínis lagt ávextina upp í hendurnar á fólki.

Samtök iðnaðarins eru bakhjarl Fjöreggsins og gefa verðlaunagripinn sem hannaður er og framleiddur af Gleri í Bergvík. Þetta er í 16. sinn sem verðlaunin eru afhent.

Tilnefndir voru veitingahúsið Friðrik V. á Akureyri fyrir öflugt kynningastarf matvæla úr héraðinu, Fiskidagurinn mikli fyrir að tengja saman ferðaþjónustu og íslenskar matarhefðir, Matur, saga og menning, félag áhugafólks um mat og matarmenningu, fyrir að efla þekkingu á íslenskum mat, Ávaxtabíllinn fyrir frumkvöðlastarf sem eykur aðgengi fólks að ávöxtum og hvetur til ávaxtaneyslu, Hollt og gott í hádeginu fyrir matseld í skólum með góðum árangri og Myllan fyrir að auka úrval og fjölbreytni í trefjaríkum brauðvörum.