Flutningasamsteypan Avion Group hyggst taka yfir rekstur þýska leiguflugfélagsins Aero Flight, segir í frétt þýska viðskiptablaðsins Handelsblatt.

Búist er við að skrifað verði undir samninga þess efnis bráðlega, segir í fréttinni. Talsmaður Aero Flight staðfesti í samtali við Handelsblatt að félagið ætti í viðræðum við Avion Group.

Samkvæmt heimildum Handselsblatt mun Avion taka yfir útistandandi kröfur félagsins og fjárfesta um 10 milljónir evra (726 milljónir íslenskra króna) í Aero Flight.

Aero Flight rekur sex Airbus flugvélar og um 300 manns starfa hjá félaginu, sem missti flugleyfi sitt í byrjun þessa mánaðar. Avion Group áætlar að endurnýja flugleyfi félagsins bráðlega.