Fjármálafyrirtækið GAMMA er byrjað að birta nýja vísitölu, Markaðsvísitölu GAMMA. Hin nýja vísitala er samsett úr öðrum vísitölum GAMMA og er ætlað að veita heildarsýn á þróun fjármálamarkaðar á Íslandi. Í tilkynningu frá Gamma segir að þessi vísitalan sé nýjung á fjármálamarkaði og fyrsta opinbera vísitalan sem nær yfir alla helstu flokka markaðsverðbréfa. Vísitalan verður send út við lok hvers viðskiptadags.

Markaðsvísitala GAMMA er samsett úr vísitölum hlutabréfa, fyrirtækjaskuldabréfa og ríkistryggðra skuldabréfa. Undirvísitölurnar eru vigtaðar eftir markaðsverðmæti og er þannig ætlað að endurspegla markaðinn á fullnægjandi hátt. Hlutfallsvigtir einstakra eignaflokka eru ekki fastar stærðir heldur sveiflast daglega með undirliggjandi markaðsvirði.

Markaðsvísitalan er bakreiknuð aftur til ársbyrjunar 2012. Ávöxtun Markaðsvísitölu GAMMA yfir tímabilið hefur verið 16,1%, sem gerir um 8,1% á ársgrundvelli. Samanburður við aðrar vísitölur GAMMA sýnir hvernig Skuldabréfavísitala GAMMA, sem inniheldur íbúða- og ríkisbréf, togar niður ávöxtun Markaðsvísitölunnar á meðan hlutabréf og fyrirtækjaskuldabréf sýna talsvert betri árangur. Beinn samanburður er þó ekki mögulegur án þess að taka til greina að áhættuálag (eins og skuldara- og seljanleikaálag) þessara eignaflokka er talsvert hærra heldur en á ríkistryggðum skuldabréfum.

Ávöxtun Markaðsvísitölunnar
Ávöxtun Markaðsvísitölunnar