Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra hefur skipað Axel Hall, Bryndísi Ásbjarnardóttur og Guðmund Kristján Tómasson sem óháða sérfræðinga í fjármálastöðugleikanefnd.

Skipunin kemur í tilefni af nýjum lögum um Seðlabankann sem tóku gildi um áramótin með sameiningu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans.

Ásamt þremenningunum sitja seðlabankastjórarnir fjórir, Ásgeir Jónsson, Rannveig Sigurðardóttir, Unnur Gunnarsdóttir og Gunnar Jakobsson í nefndinni. Ásgeir er formaður nefndarinnar.

Verkefni fjármálastöðugleikanefndar eru m.a. að leggja mat á ástand og horfur í fjármálakerfinu, fjalla um og skilgreina nauðsynlegar aðgerðir og samþykkja stjórnvaldsfyrirmæli. Nefndarmenn eru skipaðir til fimm ára og skal nefndin funda að minnsta kosti fjórum sinnum á ári.

Axel Hall er lektor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík. Bryndís er forstöðumaður þjóðhagsvarúðar hjá Fjármálaeftirlitinu og fjármálaverkfræðingur. Guðmundur hefur starfað sem framkvæmdastjóri greiðslukerfa hjá Seðlabankanum undanfarin ár.