Rithöfundurinn John Thackara hefur verið áhrifamikill í umræðunni um hönnun, samfélag og umhverfi. Thackara lýsir sjálfum sér sem fyrrverandi blaðamanni sem hagi sér eins og fimm ára barn með því að spyrja sífellt hvers vegna? Hann tekur staðreyndum ekki sem gefnum. Síðustu 10 til 15 ár hefur hann starfað við að miðla upplýsingum um hvernig hönnun getur breytt lífi okkar til betri vegar. Thackara segir heiminn vera að fyllast af vörum og þjónustu sem við þurfum ekki á að halda og að hönnuðir séu sífellt að auka á vandann. Yfirvofandi sé umhverfisleg, fjárhagsleg og samfélagsleg krísa. „Hönnuðir eiga að einbeita sér að því að auka velferð og gæði samfélagsins með nýrri nálgun og mitt hlutverk er að miðla upplýsingum af fólki sem er að vinna að samfélagslegum og félagslegum umbótum í grasrótinni.“

John segir að hugsjón hans liggi í því að finna svör við praktískum spurnigum á borð við hvernig hægt er að safna meira regnvatni og hvernig matur er geymdur án þess að nota mikla orku. „Við þurfum ekki að finna lausnirnar frá grunni því þessum spurningum hefur verið svarað um allan heim á einn eða annan hátt. Hlutverk hönnuða er að bæta það hvernig þessir hlutir eru gerðir.“ Thackara segir að málflutningur hans valdi oft örvæntingu meðal hönnuða en þegar hann hafi tækifæri til að útskýra mál sitt betur og sýni fram á mikilvægi hönnuða verði þeir jákvæðir og áhugasamir. Endurvinnsla stór iðnaður í Brasilíu John Thackara er mikill talsmaður þess að hönnun sé notuð á nytsamlegan hátt bæði fyrir umhverfi og samfélag. Hann segir fólk almennt gera ráð fyrir að endurvinnsla sé iðnaður sem sé rekinn áfram af hugsjón, lítilli tækni og lítilli sköpun en raunin er allt önnur. „Í Brasilíu þykir það t.d. mjög fínt að starfa sem sérfræðingur í endurunnu byggingarefni og fólk menntar sig í þeim fræðum. Þar er skilvirkur og þróaður markaður með endurunnið byggingarefni og mikið framboð er af slíku efni.“ Hann segir þessa þróun hafa átt sér stað af nauðsyn til að byrja með enda mikið af fólki í Brasilíu sem hafi ekki efni á að byggja sér hús frá grunni. Í dag sé þetta mikilvægur iðnaður sem er skapandi og krefst mikillar sérhæfingar. „Brasilía er heimsmeistari í að nota endurunnið efni í byggingar og í dag gerir fólk þar ekki ráð fyrir að byggja hús algjörlega frá grunni."

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins