Í viðtali við Baldur Odd Baldursson, forstjóra Wow air, í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er fjallað um samkeppnina í fluginu og stöðu einstakra félaga. Blaðamaður hefur á orði að íslenski markaðurinn sé í sjálfu sér ekki stór og rjóminn fyrir Wow air hljóti því að liggja í því að ferðamönnum hingað til lands fjölgi.

Baldur Oddur ítrekar þó að fjölgun ferðamanna gerist ekki á einni nóttu heldur sé hér um langtímamarkmið að ræða. Miðað við að um 600 þúsund ferðamenn hafi komið hingað til lands í fyrra sé rétt að stefna að komu milljón ferðamanna eftir nokkur ár. Þá segir hann að forsvarsmenn Wow air hafi á undanförnum misserum hitt markaðsaðila í ferðaþjónustu til að meta markaðinn, hlusta á sjónarmið þeirra og heyra hvað mætti betur fara o.s.frv.

„Erlendir ferðaheildsalar telja sig geta selt fleiri ferðir yfir vetrartímann en það vantar þjónustu fyrir þessa ferðamenn,“ segir Baldur Oddur.

„Ýmis þjónusta sem er í boði á landsbyggðinni á sumrin er ekki í boði á veturna, vegir til algengra ferðamannastaða eru oft illa ruddir og svona mætti áfram telja. Við fáum ekki fleiri ferðamenn yfir vetrartímann nema við aukum þjónustuna og við aukum ekki þjónustuna nema við fáum fleiri ferðamenn. Þetta er flókin hringrás sem við þurfum að leysa og þarna þurfa ríki og sveitarfélög að koma inn í og líta á þetta sem fjárfestingu til lengri tíma.“

Þannig segir Baldur Oddur að auka þurfi þjónustu á landsbyggðinni yfir vetrartímann og nefnir sjálfur dæmi.

„Ég ætlaði með fjölskylduna til Akureyrar á skíði um jólin. Ég var búinn að útvega mér íbúð og allt var tilbúið fyrir ferðalagið,“ segir hann.

„Þegar ég síðan athugaði opnunartímann í Hlíðarfjalli þá var opið í fjóra tíma á Þorláksmessu, lokað aðfangadag og jóladag og aftur opið í fjóra tíma annan í jólum. Það tók því ekki að fara. Þú myndir ekki finna skíðasvæði í Austurríki sem lokar um jólin og við byggjum ekki Akureyri upp sem skíðasvæði með þennan opnunartíma. Ég hef fullan skilning á þessum opnunartíma eins og staðan er núna, en til lengri tíma þarf að bæta þetta og þannig byggjum við upp þetta svæði. En þetta tekur allt tíma.“

Í viðtali við Viðskiptablaðið fer Baldur Oddur yfir aðdragandann að fyrsta fluginu, samkeppnina á flugmarkaði, stöðu ferðaþjónustunnar og möguleikana á vexti Wow air til framtíðar svo fátt eitt sé nefnt. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum tölublöð hér að ofan.